Málefni kísilvers Thorsils samþykkt með miklum meirihluta
Breyting á deiliskipulagi vegna lóðar kísilvers Thorsils í Helguvík var samþykkt á fundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í gær. Af ellefu bæjarfulltrúum samþykktu níu málið en tveir bæjarfulltrúar meirihlutans, Kolbrún J. Pétursdóttir frá Beinni leið og Guðný Birna Guðmundsdóttir frá Samfylkingu sátu hjá.
Kolbrún bókaði svohljóðandi á fundinum: „Ég hef lengi verið ósátt við ákvörðun fyrrverandi bæjarstjórnar að setja mengandi iðnað á svæði rétt um kílómetra við íbúabyggð. Ég vil að íbúar fái að njóta vafans sem er töluverður. Þegar ákvarðað er hvort mengunin muni verða innan eða utan marka er byggt á spám sem óvíst er hvort gangi eftir enda mæla eftirlitsstofnanir með að svæðið verði vaktað þegar verksmiðjur hefja störf.
Guðný Birna Guðmundsdóttir sagðist á fundinum hafa áhyggjur af mengun en á sama tíma væri erfitt að neita fyrirtæki inn í sveitarfélagið og tekjum fyrir svo til gjaldþrota bæ. Hún endaði á því að segja að taka ætti stefnuna á ferðamannaiðnað í stað stóriðju í Reykjanesbæ.