Málefni HSS: Fundað með heilbrigðisráðuneyti á morgun
Fulltrúar SSS munu eiga fund í fyrramálið með starfsfólki Heilbrigðisráðuneytisins vegna málefna Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Sveitastjórnir á Suðurnesjum hafa fjallað um málið að undanförnu og eru uggandi um stöðuna. Sem kunnugt er stóð til í sumar að loka fyrir læknaþjónustu eftir klukkan fjögur á daginn enda ekki talið hægt að halda úti eðlilegri starfsemi þar sem fjárveitingar ríkisins til stofnunarinnar eru skornar mjög við nögl.
Fulltrúar SSS áttu fund með heilbrigðisráðherra í sumar vegna málsins. Þar var ákveðið að hlutaðeigandi fengju tíma til að vinna í málinu og á meðan yrði fyrirhugaðri skerðingu á þjónustu stofnunarinnar frestað. Að sögn Guðjóns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra SSS, er niðurstöðu að vænta nú í september.
Ef skoðaðar eru fjárveitingar til HSS í samanburði við aðrar heilbrigðisstofnanir kemur í ljós mikill mismunur. Þannig fær HSS tæpar 79 þúsund krónur á hvern íbúa á meðan að t.d. heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki fær rúmar 200 þúsund á hvern íbúa.