Mál ljósmyndara RÚV komið inn á borð lögreglu
Mál ljósmyndara RÚV er komið inn á borð lögreglunnar á Suðurnesjum. Íbúi í Grindavík vakti athygli á því að maður merktur „RÚV PRESS“ hafi reynt að fara inn á yfirgefið heimili sitt í Grindavík fyrr í dag. Íbúinn birti myndskeið sem sýnir manninn leita að lykli og reyna að opna hurðir.
Fréttastofa RÚV harmar atvikið sem átti sér stað fyrr í dag og biður alla Grindvíkinga innilegrar afsökunar.
„Starfsmaður RÚV sást í dag á öryggismyndavél reyna að komast inn í yfirgefið hús og leita að lyklum að læstum dyrum. Fréttastofa RÚV harmar þetta atvik og biður íbúa hússins og alla Grindvíkinga innilegrar afsökunar á því.
Fréttamenn RÚV hafa kappkostað að fjalla um atburðina í Grindavík af virðingu fyrir íbúum og eigum þeirra, og vinnubrögðin sem sjást á myndskeiðinu eru ekki í anda vinnureglna eða þess anda sem fréttastofan starfar í.
Við höfum rakið atvikið til misskilnings og óðagots á vettvangi, en munum í kjölfarið fara yfir verkferla okkar og vinnureglur og brýna fyrir öllum þeim sem fara á vettvang að virða einkalíf og eigur Grindvíkinga, og valda þeim ekki meiri óþægindum eða sorg en þeir hafa þegar orðið fyrir,“ segir á vef RÚV.