Makrílveiðimenn í keppni við Guðrúnu

Feitur og pattaralegur makríll veiðist í Keflavík

Makríllinn er mættur til Keflavíkur og bátar og fólk eru líka mætt með veiðarfærin. Makríllinn var eitthvað seinni á ferðinni þetta sumarið en nú er honum rótað upp. Fiskurinn er stór og pattaralegur og mikið af honum stærri en 600 grömm eftir því sem kvotinn.is segir.

Um tugur báta er við veiðar útfrá og við Keflavíkurhöfn en bátarnir hafa einnig sótt makríl í Stakksfirði, alveg undir Keflavíkurbjargi og síðan út í Bergvík í Leiru.

Fyrr í vikunni var nokkuð stíf norðanátt og þá voru færri bátar við veiðar en fleiri í gær þegar það var minni vindur. Það vakti þó athygli í rokinu að einn báturinn, Guðrún Petrína GK úr Sandgerði, batt sig við endann á höfninni og veiddi nokkra metra frá. Það var sérstakt að sjá veiðimennina með stangirnar í keppni við Guðrúnu.