Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Makrílmok við Keflavíkurhöfn: með 600 fiska í skottinu
Laugardagur 10. júlí 2010 kl. 14:15

Makrílmok við Keflavíkurhöfn: með 600 fiska í skottinu

Hafnargarðarnir í Keflavíkurhöfn hafa verið þéttskipaðir af veiðimönnum síðustu daga. Í gær skiptu veiðimennirnir tugum og veiðin var ævintýraleg. Margir eru með 3-5 króka á línunni og fá fisk á alla króna um leið og kastað er út.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fjölmarga mátti sjá með stórar fötur eða bala fulla af makríl. Aðrir eru stórtækari og heyrðu Víkurfréttir af einum veiðimanni í gær sem var með 600 fiska í skottinu á bílnum sínum.

Það var að heyra á mörgum veiðimönnum að makríllinn yrði verkaður í frost og jafnvel bara beint á grillið með salti og pipar.

Aðrir grétu það sárlega að ekki væri hægt að koma makríl í reyk hér Suður með sjó. Það er kannski viðskiptatækifæri fyrir útsjónarsama menn að koma upp reykaðstöðu yfir helsta makrílveiðitímann.

Meðfylgjandi myndir voru teknar við Keflavíkurhöfn í gær.

Hér er búið að hausa makríl í stóran bala.

Veiðimenn voru um alla bryggju. Hafrannsóknarskipið Dröfn kom í höfnina en hafði lítil áhrif á veiðarnar.

Eins og sjá má var hafnargarðurinn þétt skipaður veiðimönnum af öllum stærðum og báðum kynjum.

Víkurfréttamyndir: Hilmar Bragi Bárðarson