Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

  • Makríllinn bjarvættur á sumarvertíð
  • Makríllinn bjarvættur á sumarvertíð
    Þorsteinn Erlingsson á spjalli við fréttakonu frá Al Jezeera fréttastofunni sem heimsótti Saltver nýlega og fylgdist með markrílvinnslunni.
Föstudagur 29. ágúst 2014 kl. 07:00

Makríllinn bjarvættur á sumarvertíð

-hundruð starfa við markrílvinnslu á Suðurnesjum í sumar

Á fjórða þúsund tonn hafa verið fryst af makríl á Suðurnesjum í sumar sem er meira en nokkru sinni fyrr. Hundruð starfa hafa orðið til í makrílvinnslunni í Reykjanesbæ, Garði og í Grindavík. Þá lönduðu smábátar yfir 1600 tonnum í sumar. Þorsteinn Erlingsson eigandi Saltvers sagði í samtali við Víkurfréttir að makrílinn hafi í raun verið bjargvættur á svæðinu. Nóg af vinnu skapist fyrir skólafólk en tugir starfsmanna unnu hjá fyrirtækinu við makrílvinnslu í sumar.

Þorsteinn segir að nú þegar hafi Saltver unnið yfir 1300 tonn en framleiðslugeta vinnslunnar eru um 120 tonn á sólarhring. Unnið er myrkranna á milli og nóg um að vera á meðan makrílvertíðin stendur yfir. Makríllinn er flokkaður í Helguvík í stærðarflokka og seldur til mismunandi landa eftir stærð og gæðum. Þorsteinn segir að aðallega hafi hann verið að selja fiskinn til Rússlands og Úkraínu í sumar og að gæði fisksins séu betri en nokkru sinni. „Það eru ekki nema 3-4 ár síðan þetta var dauður tími hjá okkur. Tækin sem eru til staðar hérna í fiskvinnslunum nýtast núna í makrílinn og það er talsvert af atvinnu sem skapast í kringum þetta. Þetta hefur í raun sett allt á annan endann, enda botnlaus vinna í kringum þetta. Hér er unnið bæði dag og nótt og ég myndi segja að þetta sé okkar besta ár, við erum líka betur undir þetta búin en áður,“ segir Þorsteinn. Hann telur að makrílveiðin eigi bara eftir að vaxa og dafna og vinnsla og veiði eigi eftir að aukast á Suðurnesjum á komandi árum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mikil makrílvinnsla hefur einnig verið hjá Nesfiski í Garði og um hundrað starfsmenn komið að þeirri vinnu í tvo mánuði. Í ár hefur 5.300 tonnum verið landað af makríl í Grindavík sem þó er að mestu leyti unninn annars staðar. Árið 2010 voru 750 tonnum landað í Grindavík og 3.300 í fyrra.

Smábátar hafa verið áberandi á makrílveiðum í sumar en samtals hafa þeir landað 4.899 tonnum á tímabilinu 1. júlí til 25. ágúst. Þar á meðal hefur 1.622 tonnum verið landað á Suðurnesjum. Í Grindavík hefur 732 tonnum verið landað, 634 tonnum í Keflavík og 256 í Sandgerði. Alls hafa verið veidd nánast 110.000 tonn á landsvísu þegar þetta er ritað en heildarkvóti er um 147.000 tonn.

Guðmund Jens Guðmundsson hjá Saltver kannar gæðin í makrílnum.