Makríll mokveiðist við Gerðabryggju
Makríll mokveiðist nú við Gerðabryggju í Garði. Vinsælt er að koma við á bryggjunni í Garði og renna þar fyrir fisk. Fyrir mörgum árum veiddist fátt annað en bryggjuufsi og marhnútur. Fyrir um fjórum árum síðan fór að bera á þorskveiði við bryggjuna í Garði og eru dæmi um allt að 10 kg. þorska sem hafa verið að veiðast á „bensínstöðvaveiðistangir“ eins og viðmælandi blaðsins komst að orði. Nú í júlímánuði fór hins vegar að bera á því að makríll væri að veiðast við bryggjuna í Garði og er jafnvel talað um mokveiði. Allur aflinn kemur á stöng og beitan oftast gular baunir.
Makríll telst í dag til nytjastofna við Íslandsstrendur en nótaskip hafa verið að veiða þennan fisk með síld að undanförnu. Fiskbúðir hafa ekki verið að selja makríl, þar sem hann hefur ekki ferið fáanlegur og það sem nótaskipin veiða fer allt til bræðslu. Matreiðslumenn eru spenntir að prófa makríl en hann er bara fáanlegur í búðum sem niðursoðinn eða reyktur. Þeir sem vilja komast í makrílveiðar er því bent á bryggjuna í Garði.
Mynd: Frá Gerðabryggju í Garði. Þar var fjölmenni á ferð í gær þegar meðfylgjandi mynd var tekin. Víkurfréttamynd: Hilmar Bragi Bárðarson