Makar ekki með á vinabæjarmót
Tíðkast hefur hjá Reykjanesbæ að makar bæjarfulltrúa taki þátt í vinbæjarmótum en ákvörðun hefur verið tekin um að hætta því fyrirkomulagi. Næsta formlega vinabæjarmót sem Reykjanesbær tekur þátt í verður haldið í Trollhättan í Svíþjóð 10. til 12. mars næstkomandi þegar borgin fagnar aldarafmæli sínu. Þrír bæjarfulltrúar og þrír embættismenn frá Reykjanesbæ munu taka þátt í vinnufundi þar. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar. Á fundinum er ætlunin að þátttakendur frá öllum vinabæjum Trollhättan muni undirbúa og hleypa af stokkunum þremur umbótaverkefnum sem unnið verður að næstu tvö árin. Verkefnin snúast um umbætur og þróun opinberrar stjórnsýslu, móttöku innflytjenda og brottfall úr framhaldsskólum.
Í sumar munu svo 18 ungmenni fædd árið 2002 taka þátt í fótboltamóti í Kerava í Finnlandi. Fyrir utan íþróttirnar hafa mótin þann tilgang að efla og styrkja tengsl þátttakenda og auka skilning þeirra á högum hvers annars. Með hópnum fara auk tveggja þjálfara þrír starfsmenn Reykjanesbæjar sem fararstjórar. Í tengslum við íþróttamótin funda embættismennirnir um sameiginleg mál tengd íþróttum og væntanlega mun gestgjafahlutverkið koma í hlut Reykjanesbæjar árið 2018.