Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Magnús Þór sendir Guðjóni tóninn
Fimmtudagur 15. júlí 2004 kl. 11:17

Magnús Þór sendir Guðjóni tóninn

Magnús Þór Hafsteinsson þingmaður Frjálslynda flokksins í Suðurkjördæmi hefur skrifað opið bréf til Guðjóns Hjörleifssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi. Í bréfinu vitnar Magnús Þór í kosningaauglýsingu Sjálfstæðiflokksins þar sem Guðjón kynnti stefnumál flokksins fyrir síðustu alþingiskosningar.
Í bréfinu skrifar Magnús orðrétt: „Það sem gerir mig hugsi er að ég fæ ekki séð að þú hafir gert nokkurn skapaðan hlut í störfum þínum hér á Alþingi á liðnum vetri, til að reyna að efna neitt af þessum loforðum. Nema með einni undantekningu. Þú varst flutningsmaður þingsályktunartillögu, ásamt þingmönnum Framsóknar, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar, um ferðasjóð íþróttafélaga. Sú fyrsta af 20 þingræðum sem þú fluttir á liðnum vetri fjallaði um þetta mál,“ segir Magnús meðal annars í bréfinu og hann sakar Guðjón um að hafa beitt lúalegum og vafasömum vinnubrögðum þegar tekin var ákvörðun um að setja trillur í kvótakerfi.
Um þetta skrifar Magnús: „Á síðustu dögum vetrarþings nú í lok maí sl., varst það þú sem formaður sjávarútvegsnefndar sem fórst fyrir þeirri aðför að hagsmunum sjávarbyggða Íslands í vor, að setja síðustu trillurnar í kvótakerfi. Af einhverjum ástæðum minntist þú ekki á þessa fyrirætlun í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári síðan. Sá eini af þingmannaefnum stjórnarflokkanna í kjördæminu sem talaði um dagatrillurnar, var vinur þinn Hjálmar Árnason í Framsóknarflokki. Hann lofaði fólkinu í kjördæminu að berjast fyrir því að halda trillunum í dagakerfi en sveik það með eftirminnilegum hætti nú í vor. En það að setja trillur í kvótakerfi var illur gjörningur, meira að segja fyrir Suðurkjördæmi, og þú beittir þar vafasömum og lúalegum vinnubrögðum sem formaður sjávarútvegsnefndar. Í kjördæminu þar sem fólkið býr sem kaus okkur báða til að gæta hagsmuna þeirra sem fulltrúar þeirra á Alþingi, lönduðu handfæratrillur í sóknardagakerfi alls um 3.000 tonnum af þorski á kvótaárunum 1998/99 – 2002/03. Það munar um minna. Þetta er til að mynda um 65 prósent af heildar þorskkvóta Vinnslustöðvarinnar á síðasta kvótaári. Fjöldi handfæratrilla á sóknarmarki í vor í Suðurkjördæmi var 34. Einsýnt er að þeim mun fækka eftir kvótasetninguna. Afli frá þeim verður minni og þetta á eftir að hafa neikvæð áhrif á atvinnustigið í kjördæminu.“

Hér má lesa opið bréf til Guðjóns Hjörleifssonar sem birt er á vef Víkurfrétta.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024