Magnús ráðinn bæjarstjóri
Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar samþykkti á fundi sínum í síðustu viku að endurráða Magnús Stefánsson í starf bæjarstjóra Suðurnesjabæjar. Magnús segir á Facebook-síðu sinni að spennandi tímar séu framundan.
Ráðning Magnúsar var samþykkt með fimm atkvæðum B- og D-lista. Forseta bæjarstjórnar og formanni bæjarráðs er falið að ganga frá ráðningarsamningi sem verði lagður fram í bæjarráði. Fulltrúar O- og S-lista sátu hjá.
Suðurnesjabær verður fjögurra ára næsta föstudag, þann 10. júní. Magnús hefur verið bæjarstjóri Suðurnesjabæjar frá stofnun sveitarfélagsins sem varð til við sameiningu Sandgerðisbæjar og Sveitarfélagsins Garðs en Magnús var áður bæjarstjóri í Garðinum.