Magnús Már nýr formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur
Magnús Már Jakobsson var í gærkvöldi kjörinn nýr formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur. Hann bauð sig fram gegn sitjandi formanni, Benóný Benediktssyni sem hafði stýrt félaginu í 28 ár, og hafði betur með 40 atkvæðum gegn 7.
„Ég bauð mig fram vegna þess að verkalýðsmál eru mér hugleikin og ég hef mikinn áhuga að vinna að málefnum verkafólks, mér finnst við vera að gleymast svolítið í umræðunni. Ég fékk margar áskoranir úr ýmsum áttum að bjóða mig fram. Ég vonast til þess að getað fetað í fótspor Benónýs sem hefur unnið frábært starf sem formaður félagsins í rúma þrjá áratugi," sagði Magnús við heimasíðu Grindavíkurbæjr, aðspurður hvers vegna hann hefði ákveðið að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni.
Eftir að Magnús var kjörinn formaður á aðalfundinum ákváðu Kristólína Þorláksdóttir, Ása Lóa Einarsdóttir og Steinunn Gestsdóttir að stíga til hliðar úr stjórninni. Í þeirra stað voru kosin þau Piotr Slawomir Latkowski, Gylfi Ísleifsson og Gunnlaugur Hreinsson. Áfram halda í stjórn þau Geirlaug Geirdal, Hólmfríður Georgsdóttir og Gunnar Vilbergsson sem í fyrra var kjörinn varaformaður til tveggja ára.
Eins og áður hefur komið fram var Benóný formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur í 28 ár en hann er orðinn 83 ára gamall. Á 75 ára afmælishófi félagsins í febrúar sl. var hann gerður að fyrsta heiðursfélaga Verkalýðsfélagsins. Benóný hafði verið varamaður Verkalýðsfélagsins í sex ár áður en hann tók við formennskunni.
Kristólína hætti einnig í stjórninni eftir 28 ára setu en hún og Benóný hafa byggt upp öflugt félag síðustu þrjá áratugi. Fjárhagur Verkalýðsfélags Grindavíkur er afar traustur.
Magnús Már hefur starfað sem öryggis- og gæðafulltrúi í Bláa lóninu undanfarin ár. Hann er 43 ára, kvæntur Salbjörgu Júlíu Þorsteinsdóttur og eiga þau eina dóttur.