Magnús genginn úr meirihlutasamstarfinu í Suðurnesjabæ
Magnús S. Magnússon, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er genginn úr meirihlutasamstarfinu í Suðurnesjabæ. Hann segir í samtali við visir.is að trúnaðarbrestur meðal sjálfstæðismanna í bæjarstjórninni hafa valdið því að hann gekk úr meirihlutasamstarfinu.
Það er því ljóst að meirihlutinn í Suðurnesjabæ er fallinn. Meirihlutinn var skipaður þremur mönnum Sjálfstæðisflokksins og tveimur frá Framsóknarflokki. Í minnihluta voru tveir fulltrúar Samfylkingar og tveir frá Bæjarlista.
Í atkvæðagreiðslu um staðsetningu gervigrasvallar klofnaði meirihlutinn á bæjarstjórnarfundi í gærkvöldi. Þar klofnaði Sjálfstæðisflokkurinn í afstöðu sinni til staðsetningu vallarins. Atkvæði féllu reyndar þannig í bæjarstórninni að þeir fimm bæjarfulltrúar sem búa í Sandgerði kusu með staðsetningu gervigrasvallarins í Sandgerði. Þeir fjórir bæjarfulltrúar sem búa í Garði greiddu atkvæði á móti.
Síðar á bæjarstjórnarfundinum í gær var bæjarráð endurnýjað. Þar missti Magnús S. Magnússon sæti sitt til flokksfélaga síns, Einars Jóns Pálssonar. Breytingin á bæjarráði var samþykkt með sex atkvæðum gegn þremur. Tveir fulltrúar Framsóknarflokks og Magnús S. Magnússon voru á móti.