Magnús Ágústsson látinn
Magnús Ágústsson, sem útnefndur var heiðursborgari Sveitarfélagsins Voga á síðasta ári, andaðist nú í byrjun árs á 96. aldursári. Magnús fæddist þann 25.maí 1922 í Halakoti á Vatnsleysuströnd. Hann gekk í Brunnastaðaskóla, skólavistin á þessum árum var fjögur ár. Magnús lauk síðar vélstjóraprófi frá Vélskóla Fiskifélagsins árið 1944.
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri í Vogum á Vatnsleysuströnd skrifar pistil um Magnús sem var hreppsstjóri í Vogum í áratugi.
Magnús lét alla tíð til sín taka á vettvangi atvinnulífs og sveitarstjórnar. Hann hóf ungur að árum sjósókn, fyrst á árabát þegar róið var úr Halakotsvör. Árið 1949 var keyptur 21 tonns dekkaður bátur, sem hafði í för með sér mikla umbreytingu á útgerðarháttum. Árið 1957 er síðan samið um nýsmíði á 5 tonna bát frá Danmörku. Útgerðin og verkunin var flutt í Voga árið 1958 vegna betri hafnaraðstöðu. Útgerðarfélagið Valdimar var stofnað í framhaldinu og óx útgerð og vinnsla jafnt og þétt næstu áratugina. Magnús varð þá talsmaður útgerðar og verkunar með fjölda manns í vinnu. Árið 1963 er aftur samið um nýsmíði á 85 tonna bát frá Danmörku. Voru þá komin tvö vegleg skip í rekstur. Laust upp úr 1970 vex útgerðin með sölu á 55 tonna bátnum og í stað hans fenginn 101 tonna bátur ásamt því að ráðist var í frystingu á afla jafnhliða saltfiskverkun. Árin 1977 og 1982 er skipt upp í stærri skip og þá 186 tonna stálskip. Skipin nefndi Magnús eftir foreldrum sínum, Ágúst Guðmundsson I og II og Þuríður Halldórsdóttir og voru alla tíð talin aflaskip.
Útgerðin var ávallt mikil lyftistöng fyrir atvinnulífið í sveitarfélaginu.
Magnús átti sæti í hreppsnefnd Vatnsleysustrandarhrepps 6 kjörtímabil, frá árinu 1958 fram til árins 1982. Gegndi hann jafnframt starfi hreppsstjóra lengst af þennan tíma.
Að leiðarlokum þakkar sveitarfélagið heiðursborgara sínum samfylgdina og það mikla mark sem hann setti á samfélag sitt. Fjölskyldunni allri er vottuð innileg samúð.