Það verður margt öðruvísi í framhaldinu
– segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ.
„Staðan er vissulega mikið áhyggjuefni og óvissa með framhaldið. Þetta mun hafa áhrif á sveitarfélagið. Við sjáum fram á minnkandi útsvarstekjur en á sama tíma aukinn kostnað ýmis konar vegna COVID-19 og það verða því miklar áskoranir að takast á við ástandið á næstu vikum og mánuðum,“ segir Magnús Stefánsson, bæjarstjóri í Suðurnesjabæ.
Suðurnesjabæ er með nokkuð digra framkvæmdaáætlun fyrir árið en á sama tíma og verið er að kalla eftir frekari þátttöku sveitarfélaganna vegna COVID-19 er tekjutap. „Ég veit ekki hvernig þetta á allt að ganga upp. Við vonum að ríkið komi þarna inni í. Staðan á Suðurnesjum er verst á öllu landinu og stefnir í 20% atvinnuleysi. Oft hefur verið þörf en nú alger nauðsyn að ríkið komi að og spýti í.“
Magnús segir að Suðurnesjamenn hafi reynslu í því að takast á við áföll. Það síðasta var fyrir um ári síðan þegar WOW air féll en þá misstu margir Suðurnesjamenn vinnuna. „Við höfum áður lent í áföllum og gengið ágætlega að vinna okkur úr þeim. Það er ljóst að margt verður öðruvísi í framhaldi af COVID-19. Við þurfum og munum bretta upp ermar í framhaldinu. Það er engin spurning. Kannski mun sjávarútvegurinn, sem er stór í Sandgerði, draga okkur að landi eins og oft áður,“ sagði Magnús Stefánsson.