Magnea Guðmundsdóttir bæjarfulltrúi látin
Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins og bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ, er látin. Hún lést í faðmi fjölskyldu sinnar á líknardeild Landspítala í Kópavogi 13. október sl. Magneu var minnst á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ síðdegis.
Magnea Guðmundsdóttir var fædd 19. apríl 1969, dóttir Guðmundar Inga Hildissonar og Bjarnhildar Helgu Lárusdóttur. Systir er Ragnheiður María. Magnea ólst upp í Keflavík þar sem hún gekk í barna- og grunnskóla og útskrifaðist sem stúdent frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja 1989. Magnea lauk BA prófi í almannatengslum frá háskólanum í Alabama 1994 og mastersprófi í sama fagi frá sama skóla ári síðar. Magnea starfaði sem kynningarstjóri og við almannatengsl hjá Bláa Lóninu frá 1998 til dánardags og tók virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækisins á því mikla vaxtarskeiði sem gerði fyrirtækið leiðandi í ferðaþjónustu á Íslandi.
Magnea var mikill áhugamaður um samfélagsmál, sér í lagi umhverfis- og skipulagsmál og lét sig miklu skipta fegrun bæjarfélagsins. Hún tók virkan þátt í félagsmálastarfi allt frá því að hún sneri heim til Íslands að loknu námi og sat í fjölmörgum nefndum og ráðum, ýmist sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, Reykjanesbæjar eða Bláa lónsins.
Magnea var m.a. varamaður í stjórn Keilis um tíma, varamaður í stjórn Keflavíkurflugvallar ohf. við stofnun þess félags og síðar stjórnarmaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, sat í stjórn Reykjanes Geopark, í stjórn íslenska ferðaklasans og var um tíma stjórnarmaður í stjórn Festu, lífeyrissjóðs. Þá sat Magnea einnig í stjórn HS Veitna sem varamaður frá 2009 og sem aðalmaður frá 2011 til dánardags. Magnea sat í stjórn markaðs- og atvinnuráðs Reykjanesbæjar frá 2002-2006, var aðalmaður í atvinnu- og hafnarráði 2006-2010 og í umhverfis- og skipulagsráði frá 2010 til 2017, þar af formaður þess á árunum 2010-2014. Magnea sat í bæjarráði um fjögurra ára skeið frá 2010 til 2014.
Magnea sat sinn fyrsta bæjarstjórnarfund í bæjarstjórn Reykjanesbæjar 29. ágúst 2006 en hún var varamaður í bæjarstjórn kjörtímabilið 2006-2010. Magnea var kjörinn aðalmaður í bæjarstjórn 2010 og sat þar til dánardags. Hún gegndi starfi varaforseta öll árin sem hún sat í bæjarstjórn og stýrði nokkrum fundum bæjarstjórnar. Magnea sat samtals 163 fundi í bæjarstjórn Reykjanesbæjar, þann síðasta 20. júní sl.
Magnea Guðmundsdóttir hafði barist við krabbamein um nokkurra ára skeið og háði þá baráttu af einurð og festu en um leið mikilli hógværð, eins og einkenndi jafnan öll hennar störf. Fyrir tæpum tveimur vikum þurfti Magnea að leggjast inn á sjúkrahús vegna veikinda sinna og laut hún í lægra haldi fyrir sjúkdómi sínum föstudagskvöldið 13. október sl., á baráttudegi Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameini hjá konum, aðeins 48 ára að aldri.
Magneu eru þökkuð fjölmörg störf í þágu sveitarfélagsins og íbúa Reykjanesbæjar. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar sendir fjölskyldu hennar og samferðarfólki innilegustu samúðarkveðjur á erfiðri stundu, segir í minningarorðum sem Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar flutti í upphafi fundar bæjarstjórnar nú áðan.