Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Magnaður lokakafli - Gunnar tryggði Keflavík sigurinn
Gunnar Ólafsson skorar hér sigurkörfuna í Ljónagryfjunni í kvöld. Mynd/Páll Orri
Mánudagur 28. október 2013 kl. 22:07

Magnaður lokakafli - Gunnar tryggði Keflavík sigurinn

Ég hugsaði nákvæmlega ekki neitt – tók bara skotið eins og ég er vanur að gera og það var ljúft að sjá hann fara ofaní,“

„Ég hugsaði nákvæmlega ekki neitt – tók bara skotið eins og ég er vanur að gera og það var ljúft að sjá hann fara ofaní,“ sagði Keflvíkingurinn Gunnar Ólafsson eftir að hann tryggði liðinu 88-85 sigur gegn Njarðvík í ótrúlegum spennuleik í Ljónagryfjunni í kvöld. Keflavík hefur þar með unnið fyrstu þrjá leiki sína í Dominos-deild karla í körfuknattleik en þetta var fyrsta tap Njarðvíkinga í vetur.

Lokakafli leiksins var magnaður þar sem að Ágúst Orrason hafði jafnað leikinn fyrir Njarðvík með þriggja stiga skoti fimm sekúndum fyrir leikslok – 85:85 og allt á suðupunkti. Keflvíkingar tóku leikhlé, boltinn barst til Gunnars sem stóð beint fyrir framan stuðningsmenn Njarðvíkinga. Hinn tvítugi hafði stáltaugar – lét skotið vaða og boltinn fór beint ofaní. Magnaður endir á frábærum leik. 

„Ég held ég hafi aldrei séð fólk standa hér í þessu húsi á deildarleik í upphafi tímabilsins,“ sagði Guðmundur Jónsson leikmaður Keflavíkur í leikslok en hann hafði verið í kastljósinu í aðdraganda leiksins. Guðmundur var að skrifa nýjan kafla í körfuboltasöguna á Suðurnesjum – og sem fyrrum Njarðvíkingur fékk hann „aðeins“ að heyra það frá heitustu stuðningsmönnum Njarðvíkur.

„Þetta var frábær skemmtun fyrir áhorfendur og ég átti alveg von á því að fá að heyra það í þessum leik. Vörnin fór í gang hjá okkur í síðari hálfleik og þegar við spilum vörnina af krafti þá eiga fá lið möguleika gegn okkur,“ sagði Guðmundur.

Það komust færri að en vildu í Ljónagryfjuna í Njarðvík í kvöld og stemningin var ótrúleg frá fyrstu mínútu. Guðmundur Jónsson lét vita af sér í upphafi leiks og dúndraði niður tveimur þriggja stiga körfum í röð. 6-0 fyrir gestina. Keflvíkingar voru með undirtökin í upphafi leiks en í stöðunni 15-14 fóru heimamenn að vakna til lífsins. Logi Gunnarsson hrökk í gang og Elvar Már Friðriksson tók einnig góðar rispur. Staðan var 32-24 fyrir heimamenn eftir fyrsta leikhluta og þaulreyndir körfuboltaspekingar áttu jafnvel von á 130 stigum frá öðru hvoru liðinu.

Fyrri hálfleikur var nánast eins og þriggja stiga skotæfing – bæði lið hittu vel og staðan var 52-48 fyrir Njarðvík í hálfleik.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar léku svæðisvörn megnið af leiknum og í síðari hálfleik fór vörn þeirra í gang. Njarðvíkingar náðu samt sem áður fínni rispu og komust í 60:52 þegar þriðji leikhluti var hálfnaður. Logi Gunnarsson fékk ekki frið til að athafna sig eftir að hafa skorað 19 stig í fyrri hálfleik og hann var í gjörgæslu hjá varnarmönnum Keflavíkur.

Smátt og smátt minnkaði Keflavík muninn og Michael Craion kom liðinu yfir 67-65 þegar skammt var eftir af þriðja leikhluta. Elvar Friðriksson svaraði fyrir Njarðvík og staðan var 70-67 þegar fjórði og síðasti leikhluti hófst.

Njarðvíkingar lentu á vegg í fjórða leikhluta og skoruðu aðeins fjögur stig fyrstu sjö mínúturnar í fjórða leikhluta – og skoraði hinn 18 ára gamli Elvar þau öll. Útlitið var dökkt fyrir heimamenn þegar 3 mínútur voru eftir, 83-72 fyrir Keflavík. Þá tók við magnaður kafli þar sem að Njarðvík saxaði niður forskotið – þar sem að Ágúst Orrason lék stórt hlutverk. Logi Gunnarsson minnkaði muninn í 85-82 með „risaþrist“ 40 sekúndum fyrir leikslok. Hann fékk annað tækifæri skömmu síðar sem fór úrskeiðis en títtnefndur Ágúst jafnaði með þriggja stiga skoti 5 sekúndum fyrir leikslok.

Keflavík tók leikhlé og lagði á ráðin með síðasta skotið. Valur Orri Valsson tók innkast, gaf á Michael Craion, sem gaf síðan á „nýliðann“ úr Fjölni – Gunnar Ólafsson sem sýndi að hann er frændi Fals Harðarsonar. Og tryggði sigurinn með flottu þriggja stiga skoti úr horninu.

Frábær endir á mögnuðum grannaslag. 

Stig Njarðvíkur: Friðrik Stefánsson 7/6 fráköst, Ágúst Orrason 14, Elvar Már Friðriksson 17/12 stoðsendingar, Nigel Moore 13/16 fráköst, Logi Gunnarsson 22, Hjörtur Einarsson 10.

Stig Keflavíkur: Gunnar Ólafsson 11/6 fráköst, Arnar Freyr Jónsson 7, Þröstur Leó Jóhannsson 3, Michael Craion 24/12 fráköst, Valur Orri Valsson 12/6 stoðsendingar, Darrel Keith Lewis 14/6 fráköst.

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar/ myndir Páll Orri:
[email protected]