Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Magma samningur fari fyrir dómstóla
Mánudagur 17. maí 2010 kl. 08:17

Magma samningur fari fyrir dómstóla


Vinstri Grænir í Reykjanesbæ vilja leita allra leiða til að ógilda fyrir dómi yfirstandandi kaup Magma Energy á Geysi Green Energy en með kaupunum eignast Magma nærfellt allt hlutafé í HS Orku. Þetta kemur fram í ályktun sem sem VG  hefur sent frá sér en hún er svohljóðandi:

„Svo virðist sem nú verði stigið stórt skref í einkavæðingu á Hitaveitu Suðurnesja. Ferlinu var komið af stað í mars 2007 þegar framkvæmdanefnd um einkavæðingu, undir merkjum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, hófst handa við útboð á 15,2% hlut ríkisins.  Var orkufyrirtækjum í almannaeigu meinuð þátttaka í útboðinu og fór svo að nýstofnað spútnik fyrirtæki, Geysir Green Energy, sem var í eigu FL group, Glitnis og Atorku keypti hlutinn. Síðar kom til sænskt skúffufyrirtæki, dótturfélag Magma Energy í Canada, sem vildi kaupa hlut OR í HS-orku. Tekist var á um þann gjörning í nefnd um erlendar fjárfestingar sem var falið að kanna lögmæti samningsins. Nefndin fékk ráðherravald í málinu og hefði getað komið í veg fyrir framvindu þess ef pólitískur vilji hefði verið fyrir hendi. Fulltrúar Samfylkingarinnar, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar féllust hinsvegar á söluna en fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs greiddi atkvæði gegn samningnum.

Fyrir landsfund Sjálfstæðisflokksins 2009 voru þeir Árni Sigfússon og Kristján Þór Júlíusson skipaðir til skýrslugerðar um afstöðu landsfundarins gagnvart ESB. Niðurstaðan var sú að ekki væri ráðlegt að ganga í ESB þar sem auðlindir þjóðarinnar gætu þá endað hjá erlendum aðilum. Því verður að teljast óeðlilegt að nú þyki Árna Sigfússyni það ánægjulegt að þessar dýrmætu auðlindir lendi í eigu erlendra aðila.

Fái Vinstrihreyfingin - grænt framboð stuðning kjósenda í Reykjanesbæ er því heitir að allra leiða verði leitað til þess að ógilda fyrir dómi yfirstandandi kaup Magma á Geysi Green Energy.  Sagan sýnir að aðrir stjórnmálaflokkar eru ekki líklegir til þess að vinda ofan af þeim vanda sem einkavæðing á auðlindum þjóðarinnar mun hafa í för með sér til lengri og skemmri tíma.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024