Mæðgur með kókaín
Erlendar mæðgur sitja nú í gæsluvarðhaldi eftir að hafa reynt að smygla kókaíni til landsins fyrr í þessum mánuði. Þær voru að koma frá Belgíu og stöðvaði tollgæslan þær við komuna til landsins í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vegna gruns um að þær væru með fíkniefni.
Lögreglan á Suðurnesjum handtók þær í kjölfarið og reyndust þær vera með fíkniefni invortis, önnur með sex pakkningar og hin með fimm pakkningar. Samtals var um að ræða nær 500 grömm af efninu.
Mæðgurnar voru úrskurðaðar í gæsluvarðhald sem þær sæta nú.