Mæðgur fermdust í Innri Njarðvík
Mæðgurnar Guðlaug Jónsdóttir Vestmann og Hafdís Mjöll Sverrisdóttir Vestmann fengu svo sannarlega að upplifa eftirminnilegan fermingardag en þær fermdust saman í Njarðvíkurkirkju sl. þriðjudagskvöld.
Athöfnin var látlaus og heimilisleg, en einungis Sverrir, eiginmaður Guðlaugar, og þrír synir þeirra hjóna voru viðstödd er þær staðfestu skírn sína fyrir séra Baldri Rafni Sigurðssyni. Guðlaug sagði Víkurfréttum söguna að baki þessarar skemmtilegu uppákomu. „Það er nú þannig að þegar ég átti að fermast á sínum tíma vildi frænka mín, sem er ári yngri en ég, fermast með mér og ég fékk leyfi til að bíða eftir henni. Svo þegar kemur að því að ég á að fermast hættir hún við. Þá er ég náttúrulega búin að missa af fermingarsystkinum mínum árið áður og ég vildi náttúrulega ekki fermast ein, þannig að það varð aldrei neitt úr því.” Guðlaug segir að Hafdís hafi brugðist vel við er hún bar hugmyndina upp við hana. „Henni fannst þetta algjört æði. Hún fær samt sinn dag á skírdag þegar hún fer með sínum jafnöldrum og verður með í fermingarathöfninni, en presturinn breytir bara spurningunni til hennar. Hún verður með í hópmyndatökunni og fær sína fermingarveislu þá. Þetta var bara fyrir okkur.”
Hún segist vita af eigin raun hversu mikilvægt er að fá að vera með vinum sínum. „Ég veit hverju ég missti af. Í öll þessi ár fann ég fyrir því að vera ófermd. Ég á sex systkini og er yngst og ég er sú eina sem var ófermd. Allt út af þessu tilstandi að frænka mín skuli hafa hætt við.”
Guðlaug hafði haldið til haga því sem átti að notast í fermingunni fyrir 25 árum. „Ég átti enn hanskana, sálmabókina, klútinn og allt sem ég keypti á sínum tíma. Klúturinn er pínulítið farinn að gulna eftir 25 ár í skápnum, en það er voðalega gaman að þessu.”
Aðdragandi fermingarinnar var afar stuttur og trúði móðir Guðlaugar vart sínum eigin eyrum um síðustu helgi er hún heyrði hvað til stóð. „Ég spurði hana hvað hún ætlaði að gefa mér í fermingargjöf og hún var bara orðlaus, en hló svo og sagði að það kæmi í ljós. Guðlaug sagðist að lokum ekki enn vita hvað hún fengi í fermingagjöf en klykkti hlæjandi út með að hún væri ekki með miklar kröfur.
VF-myndir/Þorgils