Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Má ekki kaupa fartölvu bæjarins: Undrandi á því hugarfari sem hlýtur að liggja til grundvallar
Laugardagur 29. júlí 2006 kl. 00:20

Má ekki kaupa fartölvu bæjarins: Undrandi á því hugarfari sem hlýtur að liggja til grundvallar

„Það er mjög fróðlegt fyrir mig og væntanlega fleiri að sjá hvaða hug ráðamenn Garðsins bera til mín eftir 16 ára starf fyrir Garðinn“. Þetta segir Sigurður Jónsson, fyrrum bæjarstjóri í Garði í bréfi til Oddnýjar Harðardóttur, núverandi bæjarstjóra, en meirihluti bæjarráðs Garðs hafnaði því að Sigurður gæti fengið keypta fartölvu sem hann hafði til afnota sem bæjarstjóri. Þess í stað þarf Sigurður að afhenda fartölvuna fyrir 1. ágúst nk. með öllum þeim gögnum sem varða Sveitarfélagið Garð. „ Satt best að segja er ég undrandi á því hugarfari sem hlýtur að liggja til grundvallar svona ákvörðun“, segir Sigurður einnig í bréfinu til bæjarstjóra. Bréfið í heild sinni er meðfylgjandi.

„Oddný.
Þú þarft ekki að eyða starfskröftum þínum í að láta mig vita um afgreiðslu Bæjarráðs á erindi mínu um að fá að kaupa fartölvu þá sem ég hafði til nota. Ég las afgreiðslu Bæjarráðs og synjun á erindi mínu. Satt best að segja er ég undrandi á því hugarfari sem hlýtur að liggja til grundvallar svona ákvörðun. Það var ekki ætlun mín að fá þessa tölvu ókeypis heldur kaupa hana á eðlilegu markaðsverði. Sem betur fer eru til margar verslanir í landinu sem selja fartölvur og því auðvelt að verða sér úti um eina slíka. Það er mjög fróðlegt fyrir mig og væntanlega fleiri að sjá hvaða hug ráðamenn Garðsins bera til mín eftir 16 ára starf fyrir Garðinn. Ég reiknaði engan veginn með svona afgreiðslu enda er það lítið atriði fyrir mig hvort ég nota þessa tölvu eða aðra. Vonandi líður ykkur vel með þessa ákvörðun ykkar.

Garði 28.júlí
2006.
Sig.Jónsson“

 

Mynd: Félagarnir Sigurður Jónsson, Jónas Franz Sigurjónsson og Ingimundur Þ. Guðnason  við opnun á vefsíðu Sveitarfélagsins Garðs á vormánuðum. Fartölvan á myndinni er kostagripur sem Sveitarfélagið Garður hefur ekki áhuga á að selja fyrrum bæjarstjóra, heldur vill fá til baka og það með öllum gögnum er snerta sveitarfélagið. VF-mynd: Hilmar Bragi


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024