Lýsir yfir andstöðu við sparnaðarhugmyndir
Flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar, sem haldinn var í Garðabæ um helgina, lýsir yfir áhyggjum og andstöðu við framkomnar sparnaðarhugmyndir hvað varðar lokun skurðstofa á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðistofnun Suðurlands. Og telur þær hugmyndir er þar koma fram aðför að því velferðarkerfi sem tekið hefur áratugi að byggja upp. Þetta segir í ályktun sem fundurinn sendi frá sér.
Í henni er einnig skorað á heilbrigðisraðherra að endurskoða hugmyndir sínar og taka tillit til þeirrar fjárhagsstöðu sem viðkomandi stofnanir eru í og sjá til þess að sú þjónusta sem þegar er veitt verði ekki skert frekar en orðið er.
„Lokun skurðstofa á HSS og HSU fela í sér augljósa skerðingu á þjónustu við íbúa svæðanna og öryggi þeirra er njóta.
Ljóst er að verði framkomnar hugmyndir að veruleika munu fæðingardeildir bæði HSU og HSS lognast út af og sú þjónusta sem þar er veitt færast til Reykjavíkur með tilheyrandi áhættu fyrir verðandi mæður og nýbura auk annarra áhrifa er slík ráðstöfun kemur til með að hafa fyrir núverandi notendur þjónustunnar,“ segir í ályktuninni.