Lýsir ánægju með samvinnu starfsfólks bókasafnanna í Suðurnesjabæ
Bæjarráð Suðurnesjabæjar lýsir ánægju sinni með samvinnu starfsfólks bókasafnanna í Suðurnesjabæ við að tryggja íbúum bæjarfélagsins og þá sérstaklega íbúum í Garði sem besta þjónustu í því ástandi sem skapast hefur vegna tímabundinnar lokunar bókasafnsins í Garði. Þetta kemur fram í afgreiðslu bæjarráðs nú í vikunni.
Loka hefur þurft almenningsbókasafninu í Garði tímabundið en húsnæði bókasafnsins verður tekið undir kennslurými í Gerðaskóla. Skólinn býr við húsnæðisskort þar sem stór árgangur nemenda í 1. bekk kemur í skólann í haust.
Bæjarráð leggur áherslu á að sú þjónusta sem í boði verður hjá bókasafninu verði kynnt íbúum hið fyrsta.