Lýsa yfir stuðningi við skólastjórnendur
Starfsfólk Grunnskólans í Sandgerði hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem lýst er yfir stuðningi við yfirstjórn skólans um leið og fjölmiðlaumfjöllun er hörmuð vegna atviks er varð í skólanunum fyrir nokkrum dögum þegar ráðist var á nemanda.
Yfirlýsingin er svohljóðandi:
„Við starfsfólk Grunnskólans í Sandgerði hörmum þá umfjöllun sem skólinn og yfirstjórn skólans hefur fengið í fjölmiðlum, sérstaklega á fréttamiðlinum www.mbl.is. Umfjöllun um atvik sem kom upp innan veggja skólans í síðastliðinni viku,var slitið úr samhengi og sett fram á ósanngjarnan hátt. Viðbrögð yfirstjórnar skólans í þessu máli hafa verið til fyrirmyndar og unnin í nánu samstarfi við foreldra og aðra aðila sem málið varðar. Við starfsfólk skólans höfum unnið að krafti eftir Olweusar áætluninni gegn einelti og erum að innleiða agastefnuna Uppeldi til ábyrgðar.
Við teljum að unnið sé gott starf í Grunnskólanum í Sandgerði og erum stolt af skólanum og bæjarfélaginu okkar. Við styðjum yfirstjórn skólans og höldum áfram að sinna okkar starfi af heilindum“.
Starfsfólk Grunnskólans í Sandgerði.