Lýsa yfir ánægju með verkefnið Allir með! í Reykjanesbæ
Velferðarráð Reykjanesbæjar lýsir yfir ánægju með verkefnið Allir með! og telur mjög mikilvægt fyrir samfélagið að gert verði ráð fyrir fjármagni til verkefnisins í fjárhagsáætlunum sveitarfélagsins til framtíðar.
Hilma H. Sigurðardóttir verkefnastjóri fjölmenningarmála mætti á fund velferðarráðs og fór hún yfir stöðu verkefnisins Allir með! og kynnti tillögur frá stýrihópi verkefnisins um helstu verkefni ársins 2022 ásamt minnisblaði þar sem óskað er eftir að gert verði ráð fyrir fjármagni til verkefnisins í fjárhagsáætlunum í framtíðinni. Stýrihópurinn leggur til að fjármagnið skiptist á fræðslusvið og velferðarsvið eftir umfangi verkefna og skiptingu þeirra á milli sviða.
Erindinu er vísað til fjárhagsáætlunarvinnu. Halldóra Fríða Þorvaldsdóttir, nefndarmaður í Velferðarráði er í stýrihópi verkefnisins og sat því hjá við afgreiðslu málsins.