Lýsa yfir áhyggjum af skorti á sérhæfðum námsúrræðum
„Stefna Reykjanesbæjar til framtíðar er að efla sérhæfð námsúrræði“
Áskorun frá foreldrum barns sem lýsa yfir áhyggjum af skorti á sérhæfðum námsúrræðum og skora á fræðsluráð og yfirvöld í Reykjanesbæ að bæta þar úr var tekin fyrir í fræðsluráði Reyjkjanesbæjar í síðustu viku.
Kolfinna Njálsdóttir, deildarstjóri sérfræðiþjónustu fræðslusviðs, mætti á fund ráðsins og fór yfir stöðu mála varðandi sérhæfð námsúrræði í skólum Reykjanesbæjar.
„Fræðsluráð þakkar fyrir áskorunina um að opna annað sérhæft námsúrræði. Stefna Reykjanesbæjar til framtíðar er að efla sérhæfð námsúrræði í hverjum skóla fyrir sig þannig að nemandi geti sótt sinn hverfisskóla og tilheyrt skólasamfélagi í nærumhverfi sínu, ásamt því að fá þá þjónustu sem hann þarf.
Á síðustu tveimur árum hefur verið markvisst unnið að því að fjölga nemendaplássum í sérhæfðum námsúrræðum og má taka stækkun Asparinnar sem dæmi. Einnig hefur Reykjanesbær aukið fræðslu til starfsfólks skóla um gagnreyndar kennsluaðferðir til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda,“ segir í afgreiðslu fræðsluráðs Reykjanesbæjar.