Lýsa vonbrigðum með ríkisvaldið
í almenningssamgöngum á Suðurnesjum
Bæjarráð Sameinaðs sveitarfélags Garðs og Sandgerðis lýsir vonbrigðum með þá stöðu sem upp er komin varðandi rekstur almenningssamgangna á Suðurnesjum. Þetta var bókað á fundi bæjarráðs í gær. „Jafnframt lýsir bæjarráð vonbrigðum með þá staðreynd að ríkisvaldið sé ekki tilbúið til þess að koma til móts við eðlilegar kröfur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum sem voru til þess fallnar að leysa málið.
Bæjarráð tekur undir kröfur Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum fyrir hönd íbúa á svæðinu að almenningssamgöngur verði ekki verri en verið hefur frá því Sambandið tók við verkefninu frá ríkinu með sérstökum samningi“.
Á fundinum var lagður fram tölvupóstur frá framkvæmdastjóra Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum, SSS, dags. 4. desember, ásamt bréfi frá SSS til Vegagerðarinnar dags. 3. desember. Þar kemur m.a. fram að samningur SSS við Vegagerðina um almenningssamgöngur renni út um áramót. Ekki hafi náðst samningar um að SSS haldi áfram að halda utan um reksturinn, þannig að frá 1. janúar 2019 taki Vegagerðin yfir rekstur almenningssamgangna. Jafnframt kemur fram að SSS geri þá kröfu að almenningssamgöngur verði ekki verri en verið hefur frá því SSS tók að sér þann rekstur.