Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lýsa ánægju sinni með hversu hratt og vel var brugðist við
Mánudagur 8. apríl 2019 kl. 09:45

Lýsa ánægju sinni með hversu hratt og vel var brugðist við

„Bæjarstjórn Reykjanesbæjar lýsir ánægju sinni með hversu hratt og vel hefur verið brugðist við þeim mikla vanda sem hefur skapast í kjölfar þess að WOW Air var lýst gjaldþrota. Ríkisstjórn, þingmenn, sveitarstjórnir, stéttarfélög og margir fleiri brugðust strax við, til þess að lágmarka þann skaða sem óneitanlega fylgir þegar um svo margar uppsagnir er að ræða og til þess að halda utan um þann stóra hóp fjölskyldna sem misst hefur lífsviðurværi sitt,“ segir í bókun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá því í síðustu viku.
 
Reykjanesbær hefur nú þegar brugðist við og hefur myndað aðgerðahóp til þess að meta stöðuna frá degi til dags. Þar verður sérstaklega horft til þess að koma í veg fyrir að þessi staða hafi neikvæð áhrif á börn og ungmenni sveitarfélagsins. 
 
„Stéttarfélög hafa lýst sig reiðubúin til að lána starfsmönnum WOW Air sem ekki fengu greidd laun um mánaðarmótin auk þess sem ríki hefur lagt aukna fjármuni til Vinnumálastofnunar. Einnig er ljóst að styrkja þarf atvinnuleysistryggingasjóð og ábyrgðarsjóð launa sem ábyrgist launagreiðslur við gjaldþrot fyrirtækja í framhaldi.
 
Samstillt átak af þessu tagi er ánægjulegt og mun leiða til þess að árangri verði náð fyrr en ella hefði verið. Bæjarstjórn Reykjanesbæjar mun standa þétt saman og vinna með nágrannasveitarfélögum og ríki að mótvægisaðgerðum eins og þurfa þykir,“ segir jafnframt í bókuninni sem bæjarfulltrúar Beinnar leiðar, Frjáls afls, Framsóknarflokks, Miðflokks, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks skrifa undir.
 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024