Lýsa áhyggjum af þróun eignarhalds húsnæðis
– 40% af heildareignum Íbúðalánasjóðs eru á Suðurnesjum
Sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum lýsa yfir þungum áhyggjum af þróun eignarhalds húsnæðis á Suðurnesjum. Á örfáum árum hefur Íbúðalánasjóður eignast æ fleiri fasteignir á Suðurnesjum en í lok ágúst 2014 átti sjóðurinn 831 eign á svæðinu sem eru um 40% af heildareignum hans.
„Búast má við að sjóðurinn eignist enn fleiri íbúðir þegar frestun á nauðungarsölum verður aflétt.
Þetta er slæm þróun fyrir samfélagið á Suðurnesjum og hefur margvíslegar neikvæðar afleiðingar í för með sér bæði fyrir bæjarfélögin og þær fjölmörgu fjölskyldur sem misst hafa heimili sín. Stöðugleiki í búsetu er öllum mikilvægur og óöryggi í húsnæðismálum fylgir mikil streita,“ segir m.a. í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum [SSS] á laugardag. Aðalfundur sambandsins var haldinn í Sveitarfélaginu Vogum.
Aðalfundur SSS óttast að verði ekki gripið í taumana muni hin neikvæðu áhrif á samfélagið aukast enn frekar og skapa meiri vanda. Leita verður lausna á þeim vanda sem við er að etja í húsnæðismálum á Suðurnesjum, þar sem fjöldi fullnustueigna í eigu Íbúðalánasjóðs er hlutfallslega langmestur þegar horft er til landsins alls. Leggja verður áherslu á farsæla þróun og uppbyggingu á Suðurnesjum.
„Bæði Íbúðalánasjóður og ríkisvaldið bera hér ríka ábyrgð og hvetja sveitarfélögin félags- og húsnæðismálaráðherra til að beita sér sem allra fyrst fyrir lausn þessara mála og lýsa sveitarfélögin á Suðurnesjum sig reiðubúin til samvinnu við það verkefni,“ segir í ályktun fundarins.
Þar segir jafnframt: „Aðalfundurinn leggur til að þegar í stað verði skipaður starfshópur ráðuneyta, Íbúðalánasjóðs, fjármálastofnana og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem hafi það hlutverk að gera heildstæða og tímasetta aðgerðaráætlun um að koma íbúðarhúsnæði í not“.