Lyklapartý á löggustöðinni - þér er boðið!
Lögreglan á Suðurnesjum er með óhemju úrval af bíllyklum í fórum sínum sem fundvísir borgarar hafa komið með á lögreglustöðina í þeirri von að eigendur lyklanna muni finnast. Magnús Daðason hjá lögreglunni á Suðurnesjum segir að lyklarnir skipti tugum, ef ekki hundruðum.
Nú stendur til að koma lyklunum til eyðingar, en áður en það verður gert er Suðurnesjamönnum sem týnt hafa bíllyklum á árinu, boðið í nokkrust konar lyklapartý á lögreglustöðinni við Hringbraut í Reykjanesbæ. Þar geta bíleigendur kannað hvort týndu lyklarnir þeirra séu nokkuð í vörslu lögreglunnar og ef lyklarnir ganga að bíl viðkomandi, fara bíleigendur vonandi brosandi heim.
Það er full ástæða til að kanna hvort lyklarnir leynast ekki á löggustöðinni, því þarna eru lyklar sem eru rándýrir í innkaupum fyrir þá sem hafa tapað þeim. Sagði Magnús að þarna væru lyklar sem kosta allt að 40.000 krónum í endursmíði. Í fórum lögreglunnar eru lyklar af fjölmörgum bíltegundum eins og t.d. Toyota, Mazda, Audi, Benz og svo mætti lengi telja.