Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Miðvikudagur 16. febrúar 2000 kl. 16:18

Lyftistöng fyrir íslenska knattspyrnu segir Eggert Magnússon, formaður KSÍ

„Mér finnst frumkvæði Reykjanesbæjar í þessu máli vera alveg frábært“, segir Eggert Magnússon, formaður KSÍ, um Reykjneshöllina. „Knattspyrnuhreyfingin er búin að berjast fyrir að fá knattspyrnuhöll í mörg ár. Nú hefur draumurinn ræst og við viljum óska Reykjanesbæ til hamingju með að sýna þetta frumkvæði. Það er ekki spurning að húsið mun valda gjörbyltingu í íslenskri knattspyrnu“, segir Eggert og bætir við að hann hafi verið mjög hrifinn af húsinu þegar hann fór að skoða það. „Mér finnst húsið vera mjög flott, lýsingin góð og það hafði góð áhrif á mig í alla staði.“ Þann 8. febrúar s.l. gerðu KSÍ og Reykjanesbær með sér þriggja ára leigusamning um afnot að Reykjaneshöllinni fyrir æfingaleiki og deildarbikarkeppnir. „Við vorum búin að heita Reykjanesbæ fyrir nokkrum árum að gera samning við bæinn ef þeir myndu fara í þessa framkvæmd og við stóðum við það.“ Aðspurður segist Eggert vita til þess að fjölnota íþróttahús eigi að rísa í Reykjavík í lok næsta árs, þó nokkuð stærra en Reykjaneshöllin. „Ég geri líka fastlega ráð fyrir að 2-3 slík hús rísi annars staðar á næstu árum. Ég vissi að ef eitt bæjarfélag færi út í byggja íþróttahús sem þetta, þá myndu fleiri fylgja í kjölfarið.“ Eggerti finnst Reykjanesbær vera fyrirmynd bæjarfélaga hvað uppbyggingu á knattspyrnu varðar. „Þá á ég ekki bara við Reykjaneshöllina, heldur líka fjóra gervigrasvelli sem búið er að leggja við grunnskóla bæjarins“, segir Eggert og reiknar með að knattspyrnan eigi eftir að blómstra á Suðurnesjum á næstu árum.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024