Lyfjaskápnum stolið í búðarferð
– Óprúttinn aðili fór inn í mannlausa íbúð
Óprúttinn aðili fór inn í mannlausa íbúð í Reykjanesbæ síðdegis síðastliðinn föstudag og hafði á brott með sér öryggisskáp, sem húsráðandi geymdi lyf sín í. Húsráðandinn greindi lögreglunni á Suðurnesjum frá því að hann hefði skotist út í búð, sem er í næsta húsi og skilið íbúðina eftir ólæsta á meðan. Þegar hann kom til baka, að tíu mínútum liðnum, sá hann að fataskápur í forstofu stóð opinn og öryggisskápurinn var horfinn.
Í skápnum var talsvert magn lyfja, þar á meðal sterkra verkjalyfja, því húsráðandi var nýlega búinn að setja nýja lyfjaskammta í hann, sem kostað höfðu allmikla fjárhæð.