Lyfja og Holtaskóli fjölskylduvæn fyrirtæki í Reykjanesbæ
Lyfja Reykjanesbæ og Holtaskóli hlutu viðurkenningu sem fjölskylduvæn fyrirtæki í Reykjanesbæ en árlegur Dagur um málefni fjölskyldunnar fór fram í Fjölskyldusetrinu, laugardaginn 7. mars 2015. Þessi dagur er nú haldinn í 12. sinn og tilgangur hans og markmið að minna á mikilvægi fjölskyldunnar í hverju samfélagi og mikilvægi þess að hlúð sé að fjölskyldunni og hverjum einstaklingin innan hennar með sem bestum hætti.
Frá árinu 2004, hefur Reykjanesbær við þetta tækifæri, veitt viðurkenningar til fjölskylduvænna fyrirtækja og stofnana. Alls hafa 34 fyrirtæki og stofnanir hlotið þessa viðurkenningu og eiga þau öll það sammerkt að starfsfólk þeirra tilnefna þau, vegna þeirra tækifæra sem fyrirtækin hafa skapað starfsfólki sínu til að viðhalda jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnuþátttöku, að geta sinnt hvoru tveggja, þörfum fjölskyldunnar, umönnun og uppeldi barna sinna og starfi sínu, á tímum sem skarast í daglegu lífi. Viðurkenningarnar að þessu sinni eru myndverk unnin af Stefáni Jónssyni listamanni og starfsmanni í Myllubakkaskóla með áletruðum viðurkenningaskyldi frá Reykjanesbæ.
Hera Ósk Einarsdóttir, staðgengill framkvæmdastjóra óskaði verðlaunahöfum til hamingju frá Fjölskyldu-og félagsmálaráði og hvatti fleiri fyrirtæki í Reykjanesbæ til að huga að samspili fjölskyldu-og atvinnulífs með því að setja sér skriflega fjölskyldustefnu og skapa skilyrði til að jafna ábyrgð beggja foreldra í foreldra-og fjölskylduhlutverkum sínum samhliða þátttöku í atvinnulífinu.
Í tilefni dagsins er frítt fyrir alla í Duushús, tveir fyrir einn í Víkingaheima og Rokksafnið og frítt fyrir börn. Fjörheimar/88 húsið er öllum opið kl. 13:00 – 17:00 og Ungmennagarðurinn er opinn frá kl. 10:00 – 22:00.
„Fjölskyldutríóið“ Guðbrandur Einarsson og dætur hans, Sólborg og Sigríður tóku nokkur lög í Fjölskyldusetrinu sem er í gamla barnaskólanum við Skólaveg.