Lýðræði, jafnrétti og börn á alþjóðlegri ráðstefnu í Reykjanesbæ
Norræna félagið á Íslandi býður til alþjóðlegrar ráðstefnu á Hótel Park Inn í Reykjanesbæ dagana 18.-19. maí í tilefni af formennsku Íslands í Eystrasaltsráði frjálsra félagasamtaka, Baltic Sea NGO Network, en Norræna félagið er fulltrúi Íslands í þeim samtökum. Efni ráðstefnunnar sem er lýðræði, jafnrétti og börn er samhljóma áherslum Íslands í Eystrasaltsráðinu. Aðildarríki samtakanna eru Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin ásamt Póllandi, Rússlandi og Þýskalandi. Samtökin voru stofnuð árið 2001 í þeim tilgangi að gefa grasrótinni vettvang til að láta í sér heyra og fyrir skoðanaskipti þvert á landamæri.
Búist er við um 50 erlendum gestum frá öllum aðildarríkjum sambandsins og munu þeir gista á Hótel Park Inn meðan á ráðstefnunni stendur. Setning ráðstefnunnar fer fram í Duushúsum á fimmtudagskvöldið í boði Reykjanesbæjar og þar mun Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri bjóða ráðstefnugesti velkomna til bæjarins. Bogi Ágústsson formaður Norræna félagsins mun setja ráðstefnuna og meðal annarra ræðumanna við setningarathöfnina eru Unnur Brá Konráðsdóttir forseti Alþingis, Guðmundur Árni Stefánsson sendiherra og Þorsteinn Víglundsson ráðherra. Norræna félagið hefur notið stuðnings utanríkisráðuneytisins við skipulagningu og framkvæmd ráðstefnunnar og þar að auki styrkir Konrad-Adenauer sjóðurinn ráðstefnuna.