Lýðheilsustöð með dyravarðanámskeið
Reykjanesbær í samvinnu við Lýðheilsustöð stóð fyrir námskeiði sem heitir, ábyrgð - öllum í hag og er sérstaklega ætlað dyravörðum og starfsfólki sem afgreiðir áfengi á skemmtistöðum í Reykjanesbæ.
Tæplega þrjátíu starfsmenn frá skemmtistöðum bæjarins sátu námskeiðið. Helstu markmið námskeiðsins er að auka færni starfsfólks til að takast á við erfiðar aðstæður og auka um leið öryggi sitt og gesta. Einnig að draga úr áfengis-og vímuefnaneyslu og þar með ofbeldi og slysum sem ofneyslu getur fylgt. Jafnframt að koma í veg fyrir að ofurölvuðu fólki og þeim sem eru undir lögaldri sé selt eða afhent áfengi.
Ofbeldi er oftast afleiðing ágreinings og með því að leysa ágreining í tíma á að vera hægt að koma í veg fyrir ofbeldið.
Námskeiðsefnið sá Lýðheilsustöð um að þýða frá Noregi og Svíþjóð en þar hafa slík námskeið verið haldin um árabil og í einu sveitarfélagi í Svíþjóð þar sem öll veitingahús tóku þátt í námskeiðinu hafði ofbeldi á veitingastöðum þar fækkað um 24% ári síðar.
Reykjanesbær er fyrsta sveitarfélagið á Íslandi sem heldur slíkt námskeið í samvinnu við Lýðheilsustöð.
Ragnar Örn Pétursson íþrótta-og tómstundafulltrúi, Rafn M. Jónsson verkefnisstjóri forvarna hjá Lýðheilsustöð og Hera Ósk Einarsdóttir verkefnisstjóri forvarna hjá Reykjanesbæ bera saman bækur sínar áður en námskeiðið hefst.
Af vef Reykjanesbæjar