Lukku Láki opnaður í dag
Skemmtistaðurinn Lukku Láki verður opnaður í Grindavík í dag, miðvikudag. Það eru hjónin Þorlákur Guðmundsson og Álfhildur Jónsdóttir sem eru að opna staðinn en hann hét áður Cactus.
Þorlákur hefur verið mörg ár til sjós og ákvað að láta slag standa þegar veitingastaðurinn var boðinn til sölu og keypti staðinn nú á dögunum á loðnumiðunum á milli þess sem hann hrærði í pottum og pönnum. „Við verðum með heitan mat í hádeginu, pizzur og matseðil og svo auðvitað hamborgara og létta málsverði. Við getum tekið á móti hópum og sýnum frá fótboltaleikjum á breiðtjaldi og þá er alltaf stuð og eitthvað gott tilboð í gangi. Í kvöld munu Grétar og Brynjar halda uppi fjörinu og við verðum reglulega með hljómsveitir og trúbadora sem verður spennandi fyrir fólk að koma og hlusta á,“ sagði Láki á Lukku Láka þegar blaðamaður VF leit við á mánudagskvöldið.