Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Losun til lengri tíma gæti haft slæm áhrif
Kísilverksmiðja United Silicon í Helguvík. VF-mynd/hilmarbragi
Mánudagur 27. mars 2017 kl. 17:28

Losun til lengri tíma gæti haft slæm áhrif

- Ekki bráð hætta vegna mengunar frá United Silicon - Sóttvarnanefnd fundaði um málið í dag

Farið var yfir mat á hættu vegna mengunar frá kísilverksmiðju United Silicon á fundi nefndar um sóttvarnir í dag. Að sögn Sigrúnar Ágústsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, var niðurstaða fundarins sú að íbúum í nágrenni við verksmiðjuna sé ekki bráð hætta búin. „Það er engu að síður mikilvægt að þessari losun verði náð niður því að losun til lengri tíma getur haft mjög slæm áhrif,“ segir Sigrún. Meðal þeirra sem eiga sæti í nefnd um sóttvarnir eru sóttvarnalæknir og fulltrúar Matvælastofnunar, Geislavarna ríkisins og Umhverfisstofnunar.

Niðurstöður mælinga fyrr í þessum mánuði sýndu að styrkur arsens í andrúmslofti er mun meiri en gert var ráð fyrir í mati á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar. Í matinu er gert ráð fyrir að hæst geti styrkur arsens náð 0,32 ng/m3 en mælingar sýna að styrkurinn er á milli 6 til 7 ng/m3. Á Vísindavef Háskóla Íslands segir að arsen hafi verið sett í samband við krabbamein í húð, lungum, lifur, nýrum og blöðru. Efnið er á lista yfir krabbameinsvalda hjá Alþjóðakrabbameinsstofnuninni.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Umhverfisstofnun vinnur nú að undirbúningi á verkfræðilegri úttekt á rekstri og hönnun kísilverksmiðju United Silicon. Sigrún segir undirbúninginn í ágætum farvegi. Nú sé beðið eftir upplýsingum um ráðstafanir fyrirtækisins og er von á þeim á næstu dögum.