Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Löngu áformað að bola Jóhanni út
Mánudagur 29. september 2008 kl. 09:36

Löngu áformað að bola Jóhanni út



Valgerður Sverrisdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi utanríkisráðherra, segist telja að sjálfstæðismenn hafi lengi haft áform um að bola Jóhanni R. Benediktssyni, fráfarandi lögreglustjóra, frá embætti. Í þeim tilgangi hafi þeir látið vera að mæta fjárhagsvanda embættisins. Þetta kemur fram á visi.is í morgun.
Eins og VF greindi frá fyrir helgi lítur út fyrir að lögregluembættið á Suðurnesjum hafi vísvitandi verið fjársvelt.

Vísir hefur eftir Valgerði að þegar hún var utanríkisráðherra hafi verið samstaða um það að klippa á skuldahala embættisins með aukafjárveitingu.

„En svo allt í einu komu skilaboð að ofan, ég veit ekki alveg hvaðan, um að slíkt skyldi ekki gert. Svona eftir á að hyggja datt mér í hug að ástæðan hefði verið sú að þeir (sjálfstæðismenn) hefðu skipulagt frá upphafi að losa sig við Jóhann og þess vegna ekkert verið að bæta stöðu hans," segir Valgerður í samtali við Vísi.

Eins og greint var frá í fréttum í gær lýsir Lögreglustjórafélag Íslands yfir stuðningi við dómsmálaráðherra og starfsmenn dómsmálaráðuneytisins. Yfirlýsing félagsins er í raun staðfesting á því einelti sem Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, hefur haft uppi gegn lögregluembættinu á Suðurnesjum því hún rennir stoðum undir það sem yfirmenn þess hafa sagt um samskiptin við Björn og dómsmálaráðuneytið. Þau samskipti hafa verið á allt öðrum nótum en við önnur lögregluembætti í landinu.

Aðspurð um viðbrögð Lögreglustjórafélagsins segir Valgerður: „Það er náttúrlega svo að Sjálfstæðisflokkurinn er búinn að raða gjörsamlega inn í þetta kerfi og alveg upp í Hæstarétt, svo að menn verða náttúrlega að standa réttu megin við línuna þegar svona mál koma upp."

Sjá frétt á visi.is hér.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

VFMynd/elg: Myndin er tekin þegar Eyjólfur Kristjánsson og Jóhann R. Benediksson komu til starfsmannafundar í síðustu viku. Þar tilkynntu þeir um uppsögn sína ásamt tveimur öðrum yfirmönnum embættisins.