Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Lokun Reykjanesbrautar mun ekki líðast“
Þriðjudagur 26. júlí 2005 kl. 15:28

„Lokun Reykjanesbrautar mun ekki líðast“

Ósáttir atvinnubílstjórar hyggjast mótmæla verðhækkunum á dísilolíu og hafa þeir gefið það út að Reykjanesbrautinni verði hugsanlega lokað í tvo til fjóra tíma og að búast megi við mikilli umferðarteppu.

Þeir sem koma í veg fyrir slík mótmæli eru lögreglan í Keflavík en á þeim bænum eru menn reiðubúnir og líta þeir á slíkar aðgerðir með alvarlegum augum.

„Þetta verður ekki liðið,“ sagði Karl Hermannsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Keflavík. „Við vonum að þessir menn sjá að sér og hætta við þetta en ef þeir gera þetta þá eru þeir í slæmum málum.”

„Við munum taka hart á þessu máli,“ sagði Karl og bætti því við að lögreglan væri búin að gera ráðstafanir ef einhverjir ætluðu sér að loka brautinni en hvernig ráðstafanir það væru vildi hann ekki gefa upp.

Atvinnubílstjórarnir hafa ekki gefið út hvaða dag þeir ætla að loka Reykjanesbrautinni en hafa þeir þó talað um fimmtudag eða föstudag. Ljóst er að mikil umferð verður á Reykjanesbrautinni á þessum dögum þar sem verslunarmannahelgin er á næsta leiti og nokkuð víst að Suðurnesjamenn streyma úr bæjarfélögum sínum til þess að elta sólina eða stuðið.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024