Lokun pósthúss skerðir lífskjör í Sandgerði
– óeðlilegt að póstafgreiðslu í sjálfstæðu sveitarfélagi með um 1.600 íbúa sé lokað.
Póst- og fjarskiptastofnun hefur leitað umsagnar Sandgerðisbæjar vegna beiðni Íslandspósts um heimild til lokunar póstafgreiðslu í Sandgerðisbæ. Bæjarráð Sandgerðisbæjar telur óeðlilegt að póstafgreiðslu í sjálfstæðu sveitarfélagi með um 1.600 íbúa og mikla atvinnustarfsemi sé lokað. Slíkt hefur í för með sér skerðingu á lífskjörum íbúa og takmarkar þjónustu við atvinnustarfsemi í bæjarfélaginu.
Bæjarráð Sandgerðis telur rétt að minna á að alþjóðlegur flugvöllur er í sveitarfélaginu og mikil starfsemi sem honum tengist. Jafnframt bendir bæjarráð á að í rökstuðningi Póstsins í bréfi til Póst- og fjarskiptastofnunar dags. 16.10.2014 er vísað í fordæmi sem ekki er hægt að yfirfæra á Sandgerðisbæ. Þar er talað um breytingar á þjónustu á stöðum sem allir eiga það sameiginlegt að vera afmarkaðir byggðakjarnar eða hverfi í stærri sveitarfélögum. Slíkt á ekki við í tilfelli Sandgerðisbæjar sem er sjálfstætt sveitarfélag.
Bæjarráð hefur ekki fengið til sín samanburð sem vísað er til í lok bréfs Póstsins og mótmælir harðlega að fá ekki slík gögn sem eru lögð til grundvallar því að skerða þjónustu í sveitarfélaginu.