Lokun Landsbanka fer illa í Garðmenn
Garðmenn eru æfir vegna þeirra tíðinda að útibúi Landsbankans í Garði verði lokað þann 14. september nk. Starfsfólki útibúsins var tilkynnt um lokunina nú síðdegis og bankinn gaf út tilkynningu um málið nú síðdegis.
Bæjarfulltrúi í Garði, sem Víkurfréttir ræddu við í kvöld, sagði daginn svartan í sögu Garðsins. Bæjarbúar væru margir reiðir.
Bæjaryfirvöld hafa farið fram á fund með yfirmönnum Landsbaknans vegna þessa. Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans og Einar Hannesson, útibússtjóri í Reykjanesbæ, munu hitta bæjarstjóra og bæjarfulltrúa í Garði kl. 08 í fyrramálið.
Það er að heyra á Garðmönnum að þeim er brugðið við þessar fréttir og reiðin er einnig mikil. Fjöldi Garðmanna var á knattspyrnuleik í Garði síðdegis þegar tíðindin bárust þangað. Margir ætla að hætta viðskiptum við Landsbankann verði niðurstaðan sú að lokað verði í Garði, ef marka má umræður manna á milli á hliðarlínunni.
Á bæjarstjórnarfundi í Garðinum síðdegis á morgun, miðvikudag, má einnig búast við að lögð verði fram tillaga um að innistæða sveitarfélagsins upp á tæpar 600 milljónir króna, svokallaður Framtíðarsjóður, verði tekin úr Landsbankanum og ávöxtun þess fjár verði boðin út hjá öðrum bönkum.