Lokun deildar ekki réttlætanleg
Bæjarráð Voga hefur samþykkt samhljóða tillögu oddvita L-listans, Kristins Björgvinssonar, um málefni leikskólans í Vogum. Tillagan er eftirfarandi:
„Að vel ígrunduðu máli og samkvæmt upplýsingum frá þeim fagaðilum sem málið varðar er ljóst að sú rekstrarniðurstaða sem fá átti með lokun einnar deildar og breyttum aldursviðmiðunum á leikskólanum Suðurvöllum skilar ekki þeirri hagræðingu sem reiknað var með fyrr en í fyrsta lagi árið 2014 og þá ekki nema einum þriðja af upprunalegri hagræðingu. Er það nú ljóst að hálfu L-listans að þessi ákvörðun um lokun deildarinnar og breytingu á aldursviðmiði er ekki réttlætanleg og leggur hann til að bæjarstjórn dragi ákvörðun sína til baka og leikskólinn starfi óbreyttur þar til aðrar forsendur koma fram“.
Hörður Harðarson lagði fram svofellda breytingartillögu við tillögu Kristins: „Hækkuð verði niðurgreiðsla til dagforeldra í kr. 40.000 á mánuði í viðleitni til að gera starfsgrundvöll þeirra styrkari í Vogunum“.