Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lokun aðgengis að Gunnuhver skaðar ferðaþjónustu
Föstudagur 18. desember 2009 kl. 08:49

Lokun aðgengis að Gunnuhver skaðar ferðaþjónustu


Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa unnið að því að opna aðgengi að Gunnuhver, einu stærsta og fallegasta háhitsvæði landsins sem nú hefur verið lokað af hálfu Almannavarna Ríkisins í tvö ár. Stefnt er að því að Gunnuhver verði opinn almenningi til framtíðar vorið 2010 en að sögn Óskars Sævarssonar hjá Saltfisksetrinu, sem á sæti í Ferðamálasamtökum Suðurnesja, er það háð því að aðilar sem lofuðu fjármagni í verkefnið standi við sitt.

Forsaga málsins er sú að í kjölfar nýtingar á svæðinu til orkuöflunar og þeim skáborunum sem fylgdu þeirri framkvæmd m.a undir Hveravelli og Gunnuhverssvæðið, varð gjörbreytt ásýnd og aðgengi að svæðinu. Gunnuhver ummyndaðist og svæðið hvarf í gufumökk, öll þau gömlu mannvirki sem áður höfðu verið notuð til umferðar gangandi fólks um svæðið eru nú ónothæf og ónýt, m.a bílastæðið, göngustígar og pallar.

Óskar segist hafa fengið styrk fyrir hönd Grindavíkurbæjar/Ferðamálafulltrúa frá Ferðamálaráði Íslands árið 2006 að upphæð einni milljón til lagfæringa sem nú er að engu orðið.

„Í tvö ár hafa Ferðamálasamtök Suðurnesja ásamt HS Orku unnið að tillögum um framkvæmdir sem miða að því að gera svæðið sjálfbært til framtíðar fyrir ferðamenn. Gert var ráð fyrir því að fjámögnun væri að mestu leyti í höndum HS Orku og FSS sem sérverkefni. Þeirri vinnu lauk í vetur sem leið og framkvæmdir voru áætlaðar í vor. FSS sótti um styrk frá Ferðamálastofu og fékk úthlutað 3 milljónum í efniskaup í palla- og göngustígagerð. Ekkert varð hins vegar af aðkomu HS Orku að framkvæmdum og Gunnuhver og Hveravallasvæðið óaðgengilegt með öllu fyrir heimamenn og ferðalanga. Þetta ástand er okkur öllum til mikilla vansa og stendur ferðaþjónustu á Reykjanesi fyrir þrifum," segir Óskar.

Hann upplýsir jafnframt að Ferðamálasamtök Suðurnesja hafa nú fjármagnað efniskaup til palla- og göngustígagerðar fyrir 3.2 milljónir í trausti þess að aðkoma þeirra aðila sem skylt er að klára þessar framkvæmdir með samtökunum gerði það með skjótum og góðum hætti þannig að Gunnuhver verði opinn til framtíðar vorið 2010.

Efsta myndirnar eru frá Gunnuhver en á neðstu myndinni má sjá hluta af því sem búið er að kaupa í palla- og göngustígagerð við Gunnuhver.

Af www.grindavík.is

Ljósmynd/elg - Þessir ferðamenn höfðu ekki virt merkingar um lokun svæðisins við Gunnuhver og voru staddir á þeim stað þar sem hverinn hafði farið yfir veginn. Svæðinu var lokað af öryggisástæðum. Engu að síður má stundum sjá fólk á vappi um allt hverasvæðið og því aðeins tímaspursmál hvenær slys hlýst af á meðan aðgengismálin eru í ólestri.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024