Lokun á útsýnispalli aflétt
Lögreglan á Suðurnesjum og bæjaryfirvöld í Grindavík hafa aflétt lokun á útsýnispalli við Gunnuhver á Reykjanesi. Þeim sem vilja skoða aukna virkni í Gunnuhver er því óhætt að nota útsýnispallinn til að komast nær hvernum.
Gripið var til þess ráðs að loka pallinum þegar virkni í hvernum jókst til muna og hann tók að þeyta leirslettum marga metra í loft upp.
Nú er talið að ekki stafi sérstök hætta af hvernum. Vindátt er þannig að gufu leggur ekki yfir útsýnispallinn. Áfram verður fylgst með hverasvæðinu.
Eftir að lokunum var komið upp sást til fólks þar sem það var komið út á sjálft hverasvæðið. Það getur verið hættulegt og því öruggara að hafa útsýnispalla og gönguleiðir opnar til að koma í veg fyrir glæfraskap.