Loksins Suðurstrandarvegur?
Vegagerðin hefur óskað eftir tilboðum í gerð Suðurstrandarvegar á milli Krýsuvíkurvegar og Þorlákshafnarvegar. Verkið felst í nýbyggingu Suðurstrandarvegar á 33,6 km löngum kafla ásamt 2,3 km löngum tengingum við hann, smíði 12 m steyptrar bitabrúar á Vogsós neðan Hlíðarvatns í Selvogi, auk ræsa, grjótvarnargarða, reiðstígs og girðinga, segir á heimasíðu Vegagerðarinnar.
Í lýsingunni segir að undirbyggingu á Krýsuvíkurvegi skuli vera lokið fyrir 1. júní 2009. Smíði brúar á Vogsós skal lokið fyrir 15. september 2010 og verkinu öllu skal að fullu lokið fyrir 15. september 2011. Útboðið verður auglýst á Evrópska efnahagssvæðinu.
Grindvíkingar hafa lengi bent á nauðsyn þess að fá þessa vegabót. Stjórnmálamenn hafa lengi notað veginn sem agn á kjósendur fyrir alþingiskosingar en þau loforð hafa jafn harðan verið svikin eftir kosningar. Ýmir hafa látið sig málið varða, sbr ályktanir frá SSS og Ferðamálasamtökum Suðurnesja frá síðasta ári.
Mynd/elg: Suðurstrandavegur hefur oft á tíðum verið eins og þvottabretti.