Loksins fer að lægja
Samkvæmt veðurspá fer loksins að lægja síðdegis í dag og má búast við hægri austanátt um helgina og fram í næstu viku. Í dag verður minnkandi suðaustanátt við Faxaflóann, 5-13 m/s síðdegis, hvassast sunnantil. Fremur hæg breytileg átt á morgun, bjart að mestu og hiti á bilinu 8-15 stig.
Veðurhorfur á landinu næstu daga:
Á föstudag:
Austan 5-10 m/s og súld með köflum sunnan- og austantil á landinu, en heldur hægari og yfirleitt bjartviðri norðan- og vestanlands. Hiti 9 til 17 stig.
Á laugardag, sunnudag, mánudag og þriðjudag:
Fremur hæg austlæg átt. Sums staðar þokuloft við ströndina, einkum austantil, en annars bjart að mestu. Áfram hlýtt í veðri.
Á miðvikudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt. Dálítil væta austantil, en þurrt vestantil. Heldur kólnandi veður.
---
Ljósmynd/Ellert Grétarsson – Brimið við Reykjanestá hefur verið tilkomumikið í rokinu síðustu daga.