Loksins aftur Þrettándagleði í Reykjanesbæ
Eftir þriggja ára röskun vegna heimsfaraldurs verður þrettándaskemmtun með hefðbundnum hætti haldin í Reykjanesbæ á nýjan leik föstudaginn 6. janúar.
Hátíðin hefst kl. 18:00 með blysför frá Myllubakkaskóla þar sem gengið verður í fylgd álfakóngs, drottningar og hirðar þeirra að hátíðarsvæði við Hafnargötu 12. Foreldrar eru hvattir til að leyfa börnunum að taka virkan þátt í gleðinni með því að klæða sig upp í ýmis gervi, jafnvel púkagervi og auðvitað að taka lukt meðferðis í blysförina.
Á hátíðarsvæðinu verður það sjálf Grýla sem tekur á móti hersingunni, álfar munu hefja upp raust sína og syngja þrettándasöngva og alls kyns kynjaverur verða á sveimi á svæðinu. Þrettándabrennan verður á sínum stað við Ægisgötu og gestum verður boðið upp á heitt kakó til að ylja sér.
Í lok dagskrár verða jólin kvödd að hætti Björgunarsveitarinnar Suðurnes með glæsilegri flugeldasýningu. Karlakór Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja, Leikfélag Keflavíkur, Skátafélagið Heiðabúar, Björgunarsveitin Suðurnes og lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar taka þátt í dagskránni.