Lokahnykkurinn á svikamyllu Steingríms
Ásmundur Friðriksson bæjarstjóri í Garði segir fráleitt að peningar sem lífeyrirssjóðir hafi komið með inn í HS orku á sínum tíma hafi farið í það að borga forstjóra Alterra Power tilbaka lán sem hann veitti Alterra til kaupa á hlut í HS orku. Þetta kemur fram í grein í Morgunblaðinu í dag.
Það fjármagn sem kom inn í HS orku í kjölfar þess að Jarðvarmi slhf., sem er í eigu 14 lífeyrissjóða keypti 25% hlut í fyrirtækinu hefur að hluta farið í það að borga forstjóra Alterra Power til baka lánið sem hann veitti Alterra til kaupa á hlut í HS orku.
Ásmundur segir þetta vera lokahnykk á svikamyllu Stengríms J. Sigfússonar í þessu Magma máli. Steingrímur hafi sjálfur valið þá kaupendur sem gátu keypt hlut Geysis Green í HS orku á sínum tíma.
„Ross Beaty keypti hlut sinn í HS orku með aflandskrónum og nú hefur fjármálaráðherra gefið þessum manni leyfi til að flytja þessa 3,5 milljarða, sem lífeyrirssjóðirnir ætluðu að leggja í atvinnulíf á Íslandi, í vasa þessa manns með margföldum hagnaði,“ segir Ásmundur í samtali við Morgunblaðið.
Ásmundur segir umræddan gjörning ekki hafa komið sér á óvart því þetta hafi verið rætt á fundi í Garði í vor. Menn hafi þó ekki viljað horfast í augu við raunveruleikann.
Ásmundur segir að verið sé að flytja gjaldeyri úr landi og með því að samþykkja kaup Magma á HS orku á sínum tíma hafi fjármálaráðherra í raun verið að heimila umræddan útflutning á gjaldeyri.
Engin áhrif á skuldabréf
„Við höfum engar sérstakar áhyggjur af þessum endurgreiðslum til Ross Beaty,“ segir Árni Sigfússon bæjarstjóri Reykjanesbæjar. Þegar bærinn seldi hlut sinn í HS orku á sínum tíma var það að hluta greitt með skuldabréfi sem kemur til greiðslu 2016. Umræddur gjörningur hefur því ekki áhrif á það að mati Árna en skuldabréfið komi hugsanlega fyrr til greiðslu.