Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar
Fimmtudagur 16. mars 2023 kl. 13:08

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Hafdís Inga Sveinsdóttir úr Njarðvíkurskóla stóð uppi sem sigurvegari í Stóru upplestrarkeppninni í Reykjanesbæ en lokahátíðin fór fram þann 9. mars í Stapa. Jón Ingi Garðarsson úr Heiðarskóla varð annar og í þriðja sæti var Íris Brynja Arnarsdóttir, Stapaskóla.

Þetta var í 26. sinn sem Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ var haldin. Það eru nemendur í 7. bekk úr grunnskólum Reykjanesbæjar sem taka þátt í keppninni ár hvert. Áður höfðu skólarnir haldið forkeppni og valið tvo fulltrúa hver. Fjórtán keppendur tóku því þátt að þessu sinni, tveir frá hverjum skóla. Stóra upplestrarkeppnin hefst formlega á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember ár hvert en það er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Fram að lokakeppni leggja nemendur og kennarar sérstaka áherslu á vandaðan upplestur og framsögn. 

Hafdís Inga Sveinsdóttir, Jón Ingi Garðarsson og Íris Brynja Arnarsdóttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er óhætt að segja að keppendur hafi staðið sig með prýði og verið sjálfum sér og sínum skóla til mikils sóma. Dómnefndin var ekki öfundsverð af hlutskipti sínu að velja í verðlaunasæti enda lagði Guðbjörg Sveinsdóttir, formaður dómnefndar, áherslu á það að allir væru í raun og veru sigurvegarar þar sem hver og einn keppandi hefði sigrað í sínum skóla. Að sama skapi hvatti hún keppendur til þess að halda áfram að leggja rækt við þennan þátt móðurmálsins, vandaðan upplestur og framburð. Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar, tók í sama streng og sagði jafnframt að það væri í raun alveg stórmerkilegt að á hverju ári skuli heill árgangur í nær öllum, ef ekki öllum, grunnskólum landsins verja stórum hluta vetrarins í að æfa sig í flutningi íslensks máls. Helgi þakkaði Önnu Huldu Einarsdóttur, kennsluráðgjafa á skrifstofu menntasviðs, fyrir að hafa umsjón með Stóru upplestrarkeppninni og veg og vanda að undirbúningi þessarar glæsilegu hátíðar. 

Allir keppendurnir fengu bók og rós í viðurkenningarskyni en fyrstu þrjú sætin fengu einnig peningaverðlaun í boði Íslandsbanka.

Ómissandi þáttur þessarar hátíðlegu stundar er tónlistarflutningur nemenda Tónlistarskóla Reykjanesbæjar en flutt voru fjögur tónlistaratriði á hátíðinni. Í upphafi léku þær Sóley Marin Sveinsdóttir á þverflautu og Alexandra Ósk Jakobsdóttir á píanó The Pink Panter eftir Henry Mancini. Eftir hlé léku þær Guðbjörg Lára Aradóttir og Sunna Dís Guðbergsdóttir fjórhent á píanó lagið A Spoonful of Sugar úr Mary Poppins eftir Richard og Robert Sherman. Þegar dómnefnd vék úr salnum fengu gestir að njóta þriggja tónlistaratriða. Klara Sól Jóhannsdóttir lék Little Serenade eftir Joseph Haydn, þá lék Karítas Hjörleifsdóttir Popp-ballöðu nr. 2 eftir Björgvin Valdimarsson á píanó og að lokum lék Tinna Sesselja Gísladóttir Spanish Caballero eftir Nancy Faber á píanó.   

Rakel Elísa Haraldsdóttir, sigurvegari í Stóru upplestrarkeppninni frá fyrra ári, kynnti skáld hátíðarinnar, þær Arndísi Þórarinsdóttur og Huldu Sigrúnu Bjarnadóttur. Freyja Marý Davíðsdóttir, einnig sigurvegari frá því í fyrra, kynnti ljóðskáld hátíðarinnar, Aðalstein Ásberg Sigurðsson. Þá las Kacper Einar Kotowski nemandi í Heiðarskóla ljóð á móðurmáli sínu, pólsku. Að lokum flutti Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs, ávarp og afhenti bókagjafir.

Ástæða er til að þakka öllum upplesurum, tónlistarflytjendum, kennurum og foreldrum fyrir frábæran undirbúning sem skilaði sér í vönduðum og góðum flutningi fyrir fullum sal af áhorfendum. 

Keppendur sem tóku þátt: 

Arna Dís Emilsdóttir (Akurskóla), Björk Karlsdóttir (Holtaskóla), Dagbjört Dóra Kristmannsdóttir (Stapaskóla), Elía Rós Snæfells Arnarsdóttir (Háaleitisskóla), Elís Einar Klemens Halldórsson (Njarðvíkurskóla), Guðbjörg Hera Leósdóttir (Myllubakkaskóla), Gunnar Helgi Pétursson (Heiðarskóla), Hafdís Inga Sveinsdóttir (Njarðvíkurskóla), Íris Brynja Arnarsdóttir (Stapaskóla), Jón Ingi Garðarsson (Heiðarskóla), Ljósbrá Líf Sigurðardóttir (Holtaskóla), Natalía Fanney Sigurðardóttir (Myllubakkaskóla), Orri Guðjónsson (Akurskóla) og Tinna Sesselja Gísladóttir (Háaleitisskóla).