Lokað er inn á eldstöðvarnar á meðan loftgæði eru til skoðunar hjá sérfræðingum
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna aðgengis almennings að gosstöðvunum við Litla-Hrút:
„Eldgos hófst við fjallið Litla Hrút á Reykjanesskaga klukkan 16:40 í gær.
Lokað er inn á svæðið á meðan loftgæði við eldstöðvarnar eru til skoðunar hjá sérfræðingum. Frekari upplýsinga er að vænta í hádeginu.
Eftirlit viðbragðsaðila gekk vel í gær og í nótt og var nóttin áfallalaus. Áður en kom til lokana inn á svæðið var töluverður fjöldi manna við gosstöðvarnar. Fólk virðist hafa fylgt fyrirmælum viðbragðsaðila um að yfirgefa svæðið.
Spá veðurvaktar um gasdreifingu
Með morgninum snýst vindur í norðvestlæga átt, 5-10 m/s og gasmengunin tekur því að berast til suðurs. Áfram verður líklega gasmengun á höfuðbogarsvæðinu, Vogum, Vatnsleysuströnd og Reykjanesbæ, en síðar einnig yfir Grindavík og Suðurstandarveg.“