Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Lógun danskra minka hefur gífurleg áhrif í Sandgerði
Frystigeymslur Skinnfisks í Sandgerði.
Föstudagur 6. nóvember 2020 kl. 16:16

Lógun danskra minka hefur gífurleg áhrif í Sandgerði

Sú ákvörðun að lóga minkastofninum í Danmörku hefur mikil áhrif á Íslandi. Í Sandgerði rekur Skinnfiskur fóðurverksmiðju og hefur framleitt fóður fyrir danska loðdýrarækt með góðum árangri frá árinu 1997.

„Þetta er stór bransi þarna úti og við erum með 2,5% markaðshlutdeild þar en framleiðsla á minkafóðri er aðalstarfsemi Skinnfisks svo þetta hefur gífurleg áhrif á okkur,“ segir Gulla Aradóttir, sölu- og gæðastjóri hjá Skinnfiski í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Skinnfiskur fær allt sitt hráefni til fóðurframleiðslunnar frá íslenskum fiskvinnslustöðvum en áður voru þessar aukaafurðir úr fiskvinnslunni annað hvort bræddar eða þær urðaðar.

„Við munum byggja á áratuga langri reynslu Skinnfisks til að finna hráefninu annan farveg svo ekki þurfi að urða hráefnið,“ segir Gulla.
 
Markmið Skinnfisks frá stofnun hefur verið að fullnýta íslenskar sjávarafurðir. „Við erum stolt af því að hafa fundið hráefninu farveg í þessum mæli en því var áður að mestu fargað. Síðustu 23 árin höfum við nýtt hráefnið í minkafóður á danskan markað en nú eru vatnaskil og við erum að vinna í að  finna því nýjan farveg. Aðalatriðið er að ekkert eða sem allra minnst fari í urðun,“ segir Gulla Aradóttir, sölu- og gæðastjóri hjá Skinnfiski að endingu.